Grein úr Hús og híbýli Létu mála freskur á baðherbergisveggina Texti: Fríða Björnsdóttir Ljósmyndir: Gunnar Gunnarsson Á fimmta áratugnum fór byggð í Kleppsholtinu að þéttast nokkuð ört. Við Kambsveginn reis á þessum tíma einlyft hús með kjallara, teiknað af Magnúsi K. Jónssyni, sem einnig er skráður smiður hússins. Í dag er þetta hús eitt af fáum húsum við Kambsveginn, ef ekki það eina, sem ekki hefur verið “skemmt” með því að byggt hafi verið ofan á það, utan á og allt um kring svo upprunalega húsið er gjörsamlega horfið. Húsið er því skemmtilegt sýnishorn af byggingarstíl þessa tímabils í þessu ákveðna hverfi. Oddný Magnadóttir auglýsingastjóri og Hilmar Hansson dúklagningameistari höfðu í nokkurn tíma verið að leita sér að húsi þegar þau rákust á húsið á Kambsveginum. Um leið og þau gengu inn vissu þau að þetta var húsið sem þau vildu fá og mánuði eftir að húsið var afhent voru þau flutt inn. Ýmsar breytingar höfðu verið gerðar innan dyra en þó hefur andi hússins haldið sér ótrúlega vel. Málningarvinnan vatt upp á sig Kristján Aðalsteinsson málarameistari, sem rekur fyrirtækið Litagleði, hlær að því að nýju eigendurnir hafi í upphafi sagt að það þyrfti ekki nema rétt að renna málningarrúllunni yfir veggina og svo gætu þau flutt inn. Reyndin varð önnur enda fengu þau meðal annars þá hugmynd að láta mála freskur á baðherbergisveggina og mynstur upp við loft bæði í stofum og gangi. Hvort tveggja tók drjúgan tíma en það var danska listakonan Anne Tine Foberg sem var fengin til að mála freskurnar. Hún teiknaði líka skapalónin fyrir veggmynstrið í stofum og gangi en það kom í hlut Kristjáns að mála skreytingarnar. Anne Tine og Kristján völdu líka alla litina í húsinu og eru þeir jarðlitir, allir af sama grunni. Mest áberandi eru gulir og rauðir litir, sums staðar eru veggirnir þó málaðir í ólívugrænum lit og annars staðar í ljósum, svokölluðum antíkbase lit. Oddný og Hilmar ákváðu strax að breyta eldhúsinu og baðherberginu nokkuð en í báðum þessum herbergjum voru upphaflegar innréttingar. Hluti af gömlu eldhúsinnréttingunni hefur þó verið látinn halda sér sem neðri skápur en blágrænn litur innréttingarinnar vék þó fyrir dökkrauðum lit máluðum með hágljáa. Bæði í eldhúsi og í baðherbergi var mósaík á veggjum. Gamla mósaíkið er horfið en nýtt mósaík komið á eldhúsveggina og baðherbergisgólfið hefur einnig verið lagt mósaíki. Eldhúsmósaíkið er í grænum lit og svartur litur er mest áberandi í mósaíkinu á baðherbergisgólfinu. Oddný segir okkur að það hafi ekki verið heiglum hent að fá rétta litin á fúgusementið í eldhúsinu. Upphaflega hafi Hilmar komið með ljóst fúgusement sem gerði það að verkum að óróleikinn jókst í mósaíkinu og sömuleiðis í flísunum á gólfinu. Anne Tine fann lausn á málinu. Hún blandaði saman við fúgusementið rauðum og gulum lit. Áhrifin létu ekki á sér standa og kyrrð færðist yfir eldhúsið. Buffetskápur settur upp í eldhúsið Ákveðið var að rífa niður gömlu eldhúsinnréttinguna og þá kom að því að ákveða hvað skyldi koma í staðinn. Í Tekk-vöruhúsi rákust Oddný og Hilmar á mjög stóran, gegnheilan buffetskáp sem þau fengu þegar augastað á. Efri skápurinn var laus ofan á þeim neðri og nú var honum lyft upp og hann festur upp undir loft í eldhúsinu eins og nokkurs konar yfirskápur. Neðri skápurinn stendur síðan undir honum og myndar þannig hefðbundinn eldhúsbekk. Neðri skápeining úr gamla eldhúsinu með tveimur skápum og tveimur skúffuröðum var færð til og notuð aftur. Gamla eldhúsborðeiningin er heldur lægri en nú gerist um eldhúsborð en því var í engu breytt því fella átti ofan í hana gaseldavélina og vaskinn og það gerist einmitt æ algengara að eldavélarborð séu höfð lægri en önnur borð í eldhúsinu svo þeir sem annast matseldina sjái vel ofan í pottana sem þeir eru að hræra í. Öll tæki í eldhúsið eru fengin hjá Raftækjaverzlun Íslands og eru þau stálklædd. Breytingin á baðherberginu er veruleg. Þar var skipt um öll tæki og í stað sturtu var sett baðker á fótum, gamaldags, en þó hátískubaðker. Og nú er komið að hlut Anne Tine Foberg í breytingunum á húsinu. Oddný og Hilmar höfðu frétt af listakonunni í gegnum vin sinn, Kristján málara í Litagleði, en Anne er nýflutt til Íslands og byrjaði að vinna hjá Kristjáni í haust. Fyrst var ætlunin að fá hana eingöngu til þess að skreyta baðkerið utan og silfra fætur þess, en svo fór að hún hætti ekki fyrr en hún var búin að mála freskur á baðherbergisveggina og færa það í eins konar Pompei stíl. En byrjum á baðkerinu. Fætur þess voru silfraðir með blaðsilfri og síðan var látið falla á þá en eftir það var lakkað yfir með glæru lakki sem tryggir að útlitið á ekki eftir að breytast. Hugmyndir fengnar frá Pompei Anne Tine segist síðan hafa farið að hugsa um hvernig gera mætti baðherbergið “sérstakt” og uppfylla þar með óskir Oddnýjar. Henni datt þá í hug að nota Pompei á Ítalíu sem útgangspunkt í skreytingunum. Þaðan fékk hún fyrirmyndirnar að Þokkagyðjunum þremur, Eufrosyne, Aglaia og Þalíu og nú voru þær málaðar með sérstökum freskumálningaraðferðum á veggina fyrir ofan hvítar flísar. Milli flísa og myndskreytingarinnar eru trélistar sem málaðir eru í Pompeirauðum lit. Til þess að gera útlit listanna svolítið gamallegt, og reyndar gluggans líka, var málningin nudduð af á blettum, en að sjálfsögðu eftir kúnstarinnar reglum. Anne Tine lét ljósa og dökka liti skiptast á í gyðjumynstrinu og síðan eru veggirnir málaðir með “krakkúleraðri” áferð sem gerir það að verkum að málningin virðist sprungin á köflum. Ákveðið var að skreyta veggi stofanna og einnig gangsins með mynsturköntum upp undir lofti. Anne Tine bjó til skapalónin að mynstrinu en Kristján sá um að mála það. Þegar litirnir höfðu verið bornir á og mynstrið kom í ljós reyndist það í byrjun vera helst til dökkt og áberandi. Eftir mikla og flókna vinnu við að slípa það niður og deyfa náðist áferð sem verður til þess að helst mætti halda að þarna væri ævaforn málning að hverfa fyrir ánauð tímans. Í ganginum á hæðinni var fatahengi sem gekk inn í eitt horn eldhússins. Þessu var breytt og þar sem fatahengið var eru nú komnar nokkrar hillur með skemmtilegum tágakörfum undir vettlinga, trefla og annað smálegt, en inni í eldhúsinu nýtist hornið fyrir bakarofn og uppþvottavél. Sól í herbergi Sólar Á hæðinni eru tvær stofur og svefnherbergi en þar sem á heimilinu býr, auk foreldranna, dóttirin Sól, varð að finna henni herbergi í kjallaranum og þar er henni svo sannarlega ekki í kot vísað. Kristján málari fékk þá hugmynd að sól yrði máluð á vegginn yfir rúmið hennar, en fátt annað hæfir dömunni betur. Sólin og veggirnir eru í gulum litum sem lýsast og dökkna eftir birtunni sem berst inn um gluggann. Í kjallaranum voru tvö góð herbergi og auk þess önnur tvö lítil. Langur, þröngur gangur var fyrir framan litlu herbergin. Gangveggur og veggur milli herbergjanna voru teknir og þarna hefur nú skapast stórt fjölskyldu- og vinnuherbergi. Hilmar hannaði sjálfur og smíðaði borð sem er meðfram nánast öllum útveggnum og fékk svo skúffueiningar í Húsgagnahöllinni sem rennt er inn undir borðið. Þarna getur fjölskyldan sameinast við vinnu og leik. Hilmar hnýtir flugur, Oddný vinnur í tölvunni og Sól les skólabækurnar.